Skráning er hafin á 13. unglingalandsmót UMFí sem verður haldið í Borgarnesi um verslunarmannahelgina.

 
Skráningin verður opin í tvær vikur en henni lýkur á miðnætti föstudaginn 23. júlí.

 

Keppendur eru hvattir til að skrá þátttöku tímanlega

Nánar
Fjallapassinn hefur farið gríðalega vel af stað og er nú búið að prenta annað upplag af pössunum.  Þeir ættu nú að vera komnir Bensínstöðina N1 Ísafirði, Hamraborg og upplýsingamiðstöðina í Edinborgarhúsinu. 

Fjallapassinn er skemmtilegur fjallgönguleikur á vegum Heilsueflingar í Ísafjarðarbæ, í samvinnu við Héraðssamband Vestfirðinga.  Leikurinn gengur út á að þú stimplir í fjallapassann þinn með stimplum sem eru í kössum eða vörðum á gönguleiðunum. Þegar þú hefur farið a.m.k. 4 gönguleiðir af þeim 6 sem eru í fjallapassanum, skilar þú honum inn. Allir passarnir fara svo í pott og verða nöfn heppinna göngugarpa dregin út að leik loknum og eru vegleg verðlaun í boði.
Fjallapassinn hefur verið mjög vinsæll undanfarin ár og hafa verið farnar rúmlega 400 fjallgöngur í tengslum við leikinn.  Þetta gerir fjallapassaleikinn eitt stærsta og fjölmennasta heilsueflingarátak í Ísafjarðarbæ þó víða væri leitað.  Heilsuefling í Ísafjarðarbæ og HSV hvetja alla að taka þátt í leiknum enda um mjög hollan, skemmtilegan og fjölskylduvænan leik að ræða.
Frekari upplýsingar um leikinn er að sjá á heimasíðu leiksins www.fjallapassinn.is

Nánar

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið í Borgarnesi um verslunarmannahelgina. Ungmennasamband Borgarfjarðar er mótshaldari þessa Unglingalandsmóts. Unglingalandsmótin eru vímuefnalaus íþrótta- og fjölskylduhátíð og frábær kostur fyrir alla þá sem velja heilbrigt og vímuefnalaust umhverfi samhliða því að taka þátt í fjölbreyttri íþróttakeppni.


Allir á aldrinum 11 - 18 ára geta tekið þátt í íþróttakeppni á Unglingalandsmótinu. Keppendur greiða eitt mótsgjald, kr. 6.000.- og fá með því þátttökurétt í öllum keppnisgreinum. Búseta og aðild að íþróttafélagi skiptir engu máli, allir hafa jafnan rétt til keppni á mótinu.

Keppnisgreinar á Unglingalandsmótinu verða dans, frjálsíþróttir, glíma, golf, hestaíþróttir, knattspyrna, körfubolti, mótocross, skák og sund. Þá gefst fötluðum kostur á að keppa í sundi og frjálsíþróttum.

Skráning keppenda hefst mánudaginn 12. júlí.

Skráningu lýkur á miðnætti föstudaginn 23. júlí.

HSV mætir að sjálfsögðu til leiks á unglingalandsmótið í Borganesi.  Fyrirkomulagið verður eins og undanfarin ár.  Keppendur, einstaklingar eða lið skrá sig til leiks á netinu í skráningakerfi unglingalandsmótsins.  Þegar skráningu er lokið þarf að hafa samband við HSV því greiðla á keppnisgjaldi fer í gegnum HSV.  Eitt keppnisgjald er fyrir einstakling og fær hann þá keppnisrétt í öllum keppnisgreinum á mótinu.  HSV fær úthlutað ákveðnu svæði á tjaldsvæði mótsins þar sem allt okkar fólk ætti að geta komið sér vel fyrir.  Þar mun HSV setja upp samkomutjald þar sem hægt verður að setjast niður og borða, spjalla og hafa gaman.  Einnig verður til taks Muurikka panna sem fólk getur nýtt sér til að elda á.

HSV hvetur alla sem áhuga hafa á að keppa í einhverjum af þeim keppnisgreinum sem í boði eru að skrá sig.  Unglingalandsmót er frábær fjölskylduhátíð fyrir alla sem vilja skemmta sér vel.  Allar upplýsingar um mótið er hægt að sjá á heimasíðu mótsins http://www.umfi.is/umfi09/unglingalandsmot/ .  Einnig er hægt að hafa samband við framkvæmdarstjóra HSV í tölvupóst hsv@hsv.is eða í síma 450-8450. 

Keppendur sem skrá sig þurfa að vera búinn að greiða HSV sitt gjald fyrir 23.júlí.    Þegar búið er að skrá keppanda þarf að greiða fyrir einstaklinginn inn á reikning HSV 556-14-602395 kt:490500-3160 og setja nafn keppanda í skýringu og/eða senda kvittun á tölvupóst HSV hsv@hsv.is.  Einnig þarf að senda upplýsingar um keppandann á tölvupóstfang HSV hsv@hsv.is , upplýsingar sem þurfa að koma fram þar eru nafn og kennitala keppanda, keppnisgrein/ar keppanda, nafn, sími og tölvupóstfang foreldra/forráðarmanns.  Yfirfararstjóri HSV verður Guðni Guðnason.

Fyrir þá krakka sem hafa áhuga á að keppa í frjálsum íþróttum á unglingalandsmótinu og vilja fá þjálfun eða tilsögn. þá eru æfingar undir stjórn Jóns Oddssonar í sumar,  æfingar fyrir 10-13 ára á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum frá kr 12:00-13:00 og fyrir 14 ára og eldri kl 18:30 sömu daga.   

Nánar
  Nú hefur fjallagönguleikurinn Fjallapassinn hafið göngu sína á ný.  Leikurinn var áður í gangi yfir sumartímann árin 2007 og 2008 og naut þá mikilla vinsælda.  Markmið Fjallapassans er að hvetja einstaklinga og fjölskyldur til að nýta sér þær leiðir til heilsueflingar sem felast í náttúrunni í kringum okkur.  Með þátttöku í skemmtilegum leik getur hver og einn fundið fjall við sitt hæfi til að klífa og eflt um leið sitt líkamlega og andlega þrek svo ekki sé talað um þá mikilvægu samverustund sem fjölskyldur og vinir geta átt með þátttökunni. 

Í stuttu máli gengur leikurinn út á það að klífa ákveðin fjöll og stimpla í passa með stimplum sem eru að finna á fjöllunum.  Því næst er passanum skilað inn og verða nöfn heppinna göngugarpa dregin út að leik loknum.  Þær gönguleiðir sem eru í Fjallapassanum í ár eru Naustahvilft, Fossavatn, Buná í Tungudal, Þjófaskarð, Valagil og Mýrafell.  Eiga þátttakendur að fara að minnsta kosti 4 af þessum 6 gönguleiðum áður en þeir skila passanum sínum inn.  Leikurinn stendur til 10. september og eru vegleg verðlaun í boði fyrir heppna þátttakendur. 

Eins og áður er það grasrótarsamtökin Heilsuefling í Ísafjarðarbæ sem stendur fyrir leiknum og nú í samstarfi við Héraðssamband Vestfirðinga. 

Allar nánari upplýsingar um leikreglur, hvar hægt er að nálgast passana, verðlaun og fleira er að finna á heimasíðu leiksins www.fjallapassinn.is

Nánar
Hópurinn á toppi Kaldbaks með póstkassann góða
Hópurinn á toppi Kaldbaks með póstkassann góða
1 af 3
HSV og Ferðafélag Ísfirðinga gengu í gær sunnudaginn 20.júní upp á Kaldbak við Dýrafjörð.  Tilgangi göngunnar fyrir utan þess að njóta náttúrunnar og stunda góða líkamsrækt var að fara upp með póstkassa fyrir verkefni UMFÍ "fjölskyldan á fjallið".  Farið var af stað frá íþróttahúsinu Torfnesi kl 11:00 og ekið yfir í Fossdal í Arnarfirði þar sem ganga hófst.  Veðrið hefði mátt vera betra en örlítill strekkingur var og þokusúld á toppi fjallsins.  Vegna þokunnar var útsýni á toppi þessa hæsta fjalls Vestfjarða ekkert.  Fjórtán manns kláruðu gönguna á toppinn en fjallið er 998 m hátt.  Þrátt fyrir veðrið var fólk hæstánægt með dagsverkið.  Í haust verður farin önnur ferð upp á Kaldbak þegar sækja á póstkassann og verður þá reynt að velja flott og bjart veður.

Fjölskyldan á fjallið er landsverkefni UMFÍ og hluti af verkefninu Göngum um Ísland.  Tilgangur verkefnisins er að fjölskyldur fari saman í fjallgönguferðir og verji því tíma sama um leið og lögð er rækt við útivist og líkamsrækt.  Þau fjöll sem sambandsaðilar UMFÍ hafa lagt til að þátttakendur gangi upp eru flest frekar auðveld uppgöngu en miserfið.  Póstkassa með gestabókum er að finna á rúmlega tuttugu fjöllum víðsvegar um landið.  Eru allir þátttakendur hvattir til að skrifa nafn sitt í gestabækurnar því heppnir göngugarpar verða dregnir úr þeim hópi og þeir veglega verðlaunaðir.  Frekari upplýsingar um fjöllin og gönguleiðirnar er að finna á gagnvirku landakorti á vefnum www.ganga.is .

Innan landssvæðis HSV eru tvö fjöll í leiknum og er hitt fjallið er Sauratindar sem eru upp af Sauradal og Arnadal (sjá á korti www.ganga.is).  Fljótlega verður svo gengið með póstkassann upp á Sauratinda og ef einhverjir hafa áhuga á því að ganga þangað upp eru þau beðin um að vera í sambandi við framkvæmdarstjóra HSV.

Nánar