Forvarnarstefna HSV

Mikilvægt er að Héraðssamband Vestfirðinga stuðli að því að forvarnarstefna sé til og virk innan íþróttafélaga sambandsins.  Neysla vímuefna og íþróttir fara ekki saman og hefur skaðleg áhrif á árangur í íþróttum.  Sýnt hefur verið fram á það í rannsóknum á börnum og unglingum að þeim ungmennum sem eru virk í íþróttastarfi reiði betur af í daglegu lífi, standi sig betur í námi og neyta síður vímuefna. 

Héraðssambandið leitast eftir að hafa skýra afstöðu gegn neyslu vímuefna í tengslum við íþróttir og starf íþróttafélaganna.  Héraðssambandið hvetur íþróttafélög innan sambandsins að taka upp forvarnarstefnu gegn neyslu vímuefna. Þegar átt er við vímuefni er átt við neyslu áfengis, tóbaks og annarra vímugjafa sem og neyslu hormónalyfja sem ekki eru tekin í lækningalegum tilgangi eftir tilvísun læknis.

Til að ná árangri í framkvæmd á þessu hefur Héraðssambandið sett sér markmið.

Markmið:

Hvert og eitt félag skilgreini sitt fræðslu og forvarnastarf. Félögin eru sjálf ábyrg fyrir framkvæmd stefnunnar. Mikilvægt er að íþróttahreyfingin sé trúverðug í fræðslu- og forvarnarstarfi.  Áfengis- og eða tóbaksneysla á ekki að eiga sér stað í tengslum við íþróttastarf, s.s.:

 • Áfengissala í tengslum við íþróttakeppni.
 • Áfengisneysla í lokahófum þar sem börn og unglingar eru á.
 • Reykingar og munntóbaksneysla á íþróttasvæðum.
 • Áfengisauglýsingar á eða við íþróttasvæði.

Íþróttafélög þurfa að skapa aðstæður svo öll börn og unglingar geti stundað íþróttir.  Íþróttafélög setji sér reglur og/eða marki sér stefnu í forvarnarmálum samkvæmt stefnu ÍSÍ.  Félög og deildir fræði börn og unglinga um skaðsemi vímuefna auk þess sem þau fræði sína ungu iðkendur um lyfjamál og bendi þeim á þær hættur sem geta fylgt lyfjanotkun.  

STEFNUYFIRLÝSING ÍSÍ UM FORVARNIR OG FÍKNIEFNI.

Neysla áfengis, tóbaks eða fíkniefna á aldrei samleið með iðkun íþrótta og vill íþróttahreyfingin á Íslandi efla forvarnahlutverk sitt á eftirfarandi hátt:

Setja fram markvissa stefnu

 • Hvetja íþrótta- og ungmennafélög til þess að festa í lög sín ákvæði þar sem tekin er einörð afstaða gegn neyslu á áfengi og fíkniefnum.
 • Móta sameiginlegar starfsreglur um hvernig tekið skuli á fíkniefnavanda ungs fólks á vettvangi íþróttahreyfingarinnar og hvernig unnið skuli að forvörnum og gera öll íþróttamannvirki algerlega reyklaus.

Stuðla að aukinni og almennari þátttöku ungs fólks í íþróttastarfi

 • Hvetja íþrótta- og ungmennafélög til þess að vinna markvisst að því að fjölga iðkendum íþrótta meðal barna og unglinga, m.a. með því að auka fjölbreytni í iðkuninni og tryggja þannig að öll börn og unglingar fái tækifæri til að stunda íþróttir í samræmi við eigin þarfir, getu og áhuga.
 • Nýta mannvirki og aðstöðu íþróttahreyfingarinnar til að festa íþróttastarf í sessi sem raunhæfan valkost til skemmtunar fyrir unglinga, t.d. með því að bjóða upp á iðkun óhefðbundinna greina.
 • Halda opin hús í íþróttamannvirkjum, eða efna til annars konar íþróttastarfs fyrir þessa aldurshópa þar sem meiri áhersla er lögð á að koma til móts við þarfir þeirra fyrir afþreyingu og skemmtun, en keppni og afrek.

Auka þekkingu á skaðsemi fíkniefna og forvörnum innan hreyfingarinnar

 • Gefa út fræðsluefni um fíkniefni og forvarnir fyrir þjálfara og iðkendur og gera fræðslu um þessi málefni að föstum þætti í fræðslustarfi íþróttahreyfingarinnar og í íþróttanámi í framhaldsskólum
 • Fela þjálfurum að fræða þá iðkendur sem þeir þjálfa um áhrif áfengis, tóbaks og fíkniefna á heilbrigði þeirra og árangur í íþróttum
 • Hvetja sambandsaðila íþróttahreyfingarinnar til þess að fjalla um fíkniefni og forvarnir í málsgögnum sínum og ritum.