Siðareglur Héraðssambands Vestfirðinga

Hlutverk siðareglna er að veita þeim sem koma að íþróttum almennar leiðbeiningar og vera þeim hvatning. Þær eru hluti af þeim anda sem á að vera ríkjandi í félaginu og þurfa að njóta almenns stuðnings meðal félagsmanna. Þær eru ekki tæmandi, heldur leiðbeinandi og hvetjandi. Aðhaldið felst í almennu viðhorfi til boðskapar reglnanna. Þær þarf að kynna öllum hlutaðeigandi.

Staða siðareglna er mismunandi, allt frá því að vera leiðbeinandi yfir í það að hafa refsiákvæði af ýmsum gerðum. Í tilfelli íþróttafélags er ekki þörf á að hafa refsiákvæði þar sem þau er að finna í keppnisreglum einstakra íþróttagreina.

 

 Siðareglur

 1. Forðastu að upp komi sérhver sú staða sem leitt getur til hagsmunaárekstra.
 2. Vertu hlutlaus í samskiptum þínum við opinberar stofnanir, innlend og alþjóðleg samtök sem og önnur sambönd eða hópa í samræmi við grundvallarhugsjónir íþróttahreyfingarinnar.
 3. Gættu þess að misbjóða ekki virðingu einstaklinga eða hópi einstaklinga t.d. hvað varðar kynferði, þjóðerni, kynþátt, litarhaft, menningu, tungumál, trúarbrögð, kynhneigð og stjórnmálaskoðanir.
 4. Tryggðu að persónuleg réttindi þeirra aðila sem þú ert í sambandi við og átt í samskiptum við séu varin, virt og tryggð.
 5. Gerðu þér grein fyrir trúnaðarskyldum við störf.
 6. Taktu ekki við gjöfum og þess háttar ef verðmæti þeirra er umfram það sem eðlilegt getur talist. Gefðu heldur ekki gjafir og þess háttar ef verðmæti þeirra er umfram það sem eðlilegt getur talist.
 7. Þiggðu aldrei mútur.
 8. Taktu aldrei við umboðslaunum eða loforðum um umboðslaun, fyrir hvers konar samningagerð við skyldustörf.
 9. Taktu aldrei, hvort heldur sem er með beinum eða óbeinum hætti þátt í veðmálum, fjárhættuspilum, happdrætti og þess háttar viðburðum eða viðskiptum í tengslum við íþróttaviðburði sem þú getur haft áhrif á.

 

Hegðunarviðmið 

Fyrir iðkendur

 1. Gerðu alltaf þitt besta.
 2. Þekktu reglur íþróttagreinarinnar og vertu háttvís í hvívetna.
 3. Taktu þátt af því það er gaman, á eigin forsendum en ekki til að þjóna hagsmunum styrktaraðila, foreldra eða þjálfara.
 4. Berðu virðingu fyrir öðrum.
 5. Ekki láta í ljósi neikvæðar eða niðrandi athugasemdir gagnvart öðrum iðkendum, keppinautum, dómurum, þjálfurum  og liðsstjórum sem og öðrum aðilum sem koma að íþróttastarfi með einum eða öðrum hætti.
 6. Komdu fram við aðra eins og þú vilt að þeir komi fram við þig.
 7. Gerðu þér grein fyrir því að þú ert fyrirmynd þeirra sem yngri eru.
 8. Hafðu heilbrigði alltaf að leiðarljósi og forðastu að taka áhættu varðandi heilsu þína.

 

Fyrir þjálfara

 1. Vertu iðkendum þínum góð fyrirmynd.
 2. Styrktu jákvæða hegðun og framkomu iðkenda.
 3. Skapaðu möguleika fyrir iðkendur til að þroska og nýta hæfileika sína og gættu þess að æfingar hæfi aldri og þroska.
 4. Sýndu íþróttinni virðingu og virtu reglur hennar, venjur og siði. Stuðlaðu að því að iðkendur geri slíkt hið sama og kenndu þeim að virða dómara og keppinauta.
 5. Viðurkenndu og sýndu virðingu þeim ákvörðunum sem dómarar taka.
 6. Komdu eins fram við alla iðkendur, óháð kyni, kynþætti, stjórnmálaskoðunum, trúarbrögðum og kynhneigð.
 7. Hrósaðu iðkendum og taktu tillit til aldurs og þroska. Viðhafðu jákvæða gagnrýni.
 8. Samþykktu aldrei ógnandi eða ofbeldisfulla tilburði.
 9. Sýndu athygli og umbyggju þeim iðkendum sem orðið hafa fyrir meiðslum.
 10. Leitaðu samstarfs við aðra þjálfara eða sérfræðinga þegar þess þarf.
 11. Viðurkenndu rétt iðkandans til þess að leita ráða hjá öðrum þjálfurum.
 12. Hafðu ávallt í huga að þú ert að byggja upp fólk, bæði líkamlega og andlega.
 13. Hafðu ávallt heilsu og heilbrigði iðkenda þinna í huga og varastu að setja þá í aðstöðu sem ógnað gæti þessum þáttum.
 14. Talaðu ávallt gegn neyslu áfengis og tóbaks.
 15. Talaðu ávallt gegn notkun ólöglegra lyfja.
 16. Sæktu reglulega endurmenntun.
 17. Leggðu þitt af mörkum til að skapa gott andrúmsloft og félagsleg tengsl.
 18. Komdu þér aldrei í þá aðstöðu að þú sért einn með iðkanda.
 19. Sinntu iðkendum á æfingum en þess utan skaltu halda þig í faglegri fjarlægð. Forðastu samskipti gegnum síma og internetið nema til boðunar æfinga og upplýsingagjafar
 20. Taktu aldrei að þér akstur iðkenda, hvorki á leiki né æfingar, nema með skriflegu leyfi foreldra.
 21. Forðastu náið samband við iðkanda, fyrir utan æfingar- og keppnistíma.
 22. Beittu (iðkanda) aldrei kynferðislegu, líkamlegu eða andlegu áreiti. 

 

Fyrir stjórnarmenn og starfsmenn

 1. Stattu vörð um grunngildi íþróttahreyfingarinnar.
 2. Stattu vörð um anda og gildi félagsins og sjáðu um að hvort tveggja lifi áfram meðal félagsmanna.
 3. Komdu fram við alla félagsmenn sem jafningja, óháð kyni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, litarhætti og kynhneigð.
 4. Stuðlaðu að jöfnum tækifærum allra til þátttöku innan félagsins.
 5. Vertu til fyrirmyndar í framkomu, bæði innan félags og utan.
 6. Leystu ágreining og árekstra á sanngjarnan hátt og til samræmis við reglur og venjur.
 7. Hafðu lýðræðisleg vinnubrögð í heiðri.
 8. Taktu alvarlega þá ábyrgð sem þú hefur gagnvart félaginu og iðkendum.
 9. Hafðu ávallt í huga að í félaginu er verið að byggja upp fólk.
 10. Rektu félagið ávallt eftir löglegum og ábatasömum reikningsaðferðum.
 11. Misnotaðu aldrei aðstöðu þína til að koma eigin hagsmunum á framfæri á kostnað félagsins.
 12. Haltu félagsmönnum vel upplýstum og gerðu félagsmenn að þátttakendum í ákvarðanatöku eins og hægt er.

 

Fyrir foreldra og forráðamenn

 1. Mundu að barnið þitt tekur þátt sín vegna, ekki þín vegna.
 2. Hvettu barnið til þátttöku í íþróttum en ekki þvinga það.
 3. Útskýrðu fyrir barninu að starfið fari fram eftir ákveðnum reglum og kenndu því að leysa úr ágreiningi.
 4. Styddu og hvettu öll börn og ungmenni, ekki bara þín eigin, bæði við æfingar og keppni.
 5. Ekki láta í ljósi neikvæðar eða niðrandi athugasemdir gagnvart iðkendum, keppinautum, dómurum, þjálfurum  og liðsstjórum sem og öðrum aðilum sem koma að íþróttastarfi með einum eða öðrum hætti.
 6. Sýndu jákvæðni, líka þegar á móti blæs.
 7. Berðu virðingu fyrir ákvöðrðunum dómara og annarra starfsmanna.
 8. Berðu virðingu fyrir réttindum barna.
 9. Upplýstu um stríðni og/eða áreiti.
 10. Lærðu að meta þátttöku sjálfboðaliða hjá félaginu því án þeirra hefði barn þitt ekki möguleika á að stunda æfingar og keppni með félaginu.