Kristín Þorsteinsdóttir hjá Íþróttafélaginu Ívari var í gær útnefnd íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2013. Kristín, sem er 21 árs, hefur æft sund frá átta ára aldri. Í umsögn valnefndar segir að Kristín hafi ávallt stundað æfingar af elju og samviskusemi ásamt því að vera mikil keppnismanneskja. Blaðamaður náði á Kristínu og móður hennar, Sigríði Hreinsdóttur, og eru þær mæðgur að vonum stoltar af árangrinum. Árið 2013 var gott sundár hjá Kristínu. Hún tók þátt í Reykjavík International Games, Íslandsmeistarmóti í 50m laug, bikarmóti á Akureyri og Íslandsmeistarmóti í 25m laug. Á þessum mótum vann hún fjögur gull, tvö silfur og einu sinni vann hún til bronsverðlauna. 

Á bikarmótinu var Kristín einungis þremur sekúndum frá heimsmetinu og er það ótrúlegur árangur sé tekið tillit til smæðar Íþróttafélagsins Ívars og bágborinnar aðstöðu sundfólks á Ísafirði. Kristín æfir í Sundhöllinni á Ísafirði og segja þær mæðgur það vissulega erfitt að æfa í 16 metra laug en allar keppnir fara fram í 50 og 25 metra laugum. Sigríður bætir við að aðgengismál fatlaðra séu ekki eins og best verði á kosið í Sundhöllinni sem gerir fötluðum erfitt fyrir að stunda sund en segir að vissulega sé erfitt að koma aðgengismálum í topp ástand í svo gömlu húsi. 

Sem dæmi um frábæran árangur Kristínar í fyrra má nefna að á fyrrnefndu bikarmóti, sem er stigamót, mætti Kristín ein til leiks frá Ívari vegna forfalla en skilaði engu að síður 1.709 stigum í pottinn. Næsta lið á undan náði 4.757 stigum en notuðu til þess 39 sundmenn. Kristín æfir þrisvar í viku og segir að þau séu fimm sem æfi sund hjá Ívari en einungis hún taki þátt í mótum og getur það verið ansi einmanalegt. Næsta mót á dagskránni hjá Kristínu er Íslandsmót í apríl. Draumurinn er að fara á stórt sundmót á Ítalíu í haust en slík ferðalög eru kostnaðarsöm og ekki ákveðið hvort Kristín fari. 

Sundið á allan hug Kristínar og lítill tími fyrir önnur áhugamál. Hún starfar á endurhæfingardeild Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Auk Kristínar voru eftirtaldir íþróttamenn tilnefndir til verðlaunanna: Sigfús Fossdal lyftingamaður, Guðmundur Valdimarsson skotíþróttamaður, Jón Hrafn Baldvinsson körfuboltamaður, Guðmundur Sigurvin Bjarnason gönguskíðamaður, Hafsteinn Rúnar Helgason knattspyrnumaður og Anton Helgi Guðjónsson golfari.

Fréttin er fengin frá BB
M
yndasmiðurinn er Halldór Sveinbjörnsson hjá BB. Nánar

Íþróttaskóli HSV hefur göngu sína á nýju ári þriðjudaginn 7.janúar. Það er von okkar að sem flestir geti tekið þátt í þeim æfingum sem í boði eru og hver og einn njóti sín við íþróttaiðkun í skólanum. Stundatöflunni hefur verið breytt frá því í haust og nú hafa skíðaæfingar einnig bæst við í töfluna. Endilega kynnið ykkur nýju töfluna hér á heimasíðunni okkar.

Skráning í frístundina er með aðeins öðruvísi hætti en í haust, eflaust einhverjum til mikillar ánægju. Nú þarf ekki að skrá börnin í öll frístundabilin í skráningakerfinu heldur aðeins að yfirfara nafnalista sem sendur var út rétt fyrir jólin og láta vita ef einhverju þarf að breyta. Það þarf hins vegar að skrá börnin  í Íþróttaskóla HSV fyrir vorönnina og það gerið þið inni á heimasíðunni okkar: https://hsv.felog.is/

Ef upp koma vandamál varðandi skráningu í Íþróttaskólann þá endilega sendið Salome tölvupóst á netfangið ithrottaskoli@hsv.is . Ef þið viljið gera breytingar á frístundaskrá barna ykkar þá vinsamlegast sendið Margréti Halldórs tölvupóst á margreth@isafjordur.is 

Með von um gott og heilbrigt samstarf á nýju ári.

 

Nánar

Orkubú Vestfjarða afhenti á mánudag 4,2 milljónir króna í formi samfélagsstyrkja til 29 félagasamtaka á Vestfjörðum.


Íþróttaskóli HSV hlaut einn hæsta styrkinn þetta árið eða 250 þús. krónur sem nýtast frábærlega í rekstur skólans.


Héraðssamband Vestfirðinga þakkar hjartanlega þennan stuðning frá Orkubúi Vestfjarða. 

Nánar

Undanfarin ár hefur Landflutningar styrkt Íþróttaskóla HSV um jólin með verkefni sem ber heitið Gleðigjafir. Styrkurinn er fólgin í því að hver greidd sending, til eða frá norð-Vestfjörðum með Landflutningum, fer óskert sem styrkur til Íþróttaskólans.

Prísin er einfaldur og góður- greiddar eru 790 kr. fyrir hámark 30 kg. eða 0,1 m³.  Athygli er vakin á því að sama gildir um alla pakka á leið vestur- ef þeir kjósa sér far með Landflutningum fer sendingargjaldið óskert til Íþróttaskóla HSV.

Þessi fjáröflun skiptir rekstur Íþróttaskólans miklu máli og þá þjónustu sem skólinn veitir. Það er því von að foreldrar, forráðamenn og velunnarar taki við sér og nýti sér þessa frábæru þjónustu Landflutninga og fjárfesti um leið í metnaðarfullu og uppbyggjandi íþróttastarfi fyrir börn. 

Næstkomandi mánudag, þriðjudag og miðvikudag verður tekið á móti jólapökkum og greiðslu í Torfnessíþróttahúsinu á milli 16:00 – 18:30. Þar munu starfsmenn HSV vera til staðar og taka við gjöfum sem eiga ferðalag fyrir höndum til að gleðja og kæta ættingja og vini.

Athugið að miðvikudagurinn 18. des. er síðasti dagur til að senda pakka suður með Landflutningum. Eftir þann dag fer jólakötturinn á stjá.

Nánar

Hef tekið saman nokkra punkta varðandi næringu barna og unglinga í íþróttum. Endilega hugið vel að mataræði barnanna ykkar og hugsið daginn til enda, t.d. ef þau eru að fara á æfingu seinni hluta dags. Það getur verið erfitt að fara á æfingu kl.15 eða síðar, þegar síðasta máltíð var kl.11:30 eða 12. Einfalt orkuskot eins og þurrkaðir ávextir, ávaxtasafi eða hnetur og möndlur fara vel í íþróttatöskunni og geymast vel.

Kveðja, Salome yfirþjálfari íþróttaskóla HSV og næringarfræðingur.

 

Næring barna og unglinga í íþróttum

Líkaminn þarfnast orku til vaxtar og viðhalds og er þetta sérlega mikilvægt fyrir börn og unglinga í örum vexti. Mikilvægt er að þau fái næga orku til að takast á við verkefni dagsins og hafi nægilegt eldsneyti þegar kemur að íþróttaæfingu. Mataræði er svo sannarlega einn af þeim þáttum sem hafa áhrif á árangur í íþróttum og hér koma nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga varðandi næringu barnanna:

  • Borðum fjölbreytt – úr öllum fæðuflokkum daglega
  • Borðum reglulega yfir daginn: Morgunmatur, morgunhressing, hádegismatur, síðdegishressing, kvöldmatur, (kvöldhressing)
  • Borðum meira af ávöxtum, grænmeti og fiski
  • Takmörkum neyslu á sælgæti, sykruðum gos- og svaladrykkjum og sætabrauði
  • Lýsi inniheldur D-vítamín, sem ekki er að finna í mörgum fæðutegundum. D-vítamín hefur góð áhrif beinheilsuna, ásamt kalkinu (sem við fáum t.d. úr mjólkinni)
  • Munum að vatn er besti svaladrykkurinn og ætti alltaf að vera með á æfingum. Mikilvægt að vökva sig vel yfir daginn, fyrir æfingu, á æfingunni og eftir hana
  • Drykkir sem innihalda koffein (t.d. dökkir gosdrykkir, orkudrykkir, te og kaffi) eru ekki góður kostur
  • Fæðubótarefni eru óþörf fyrir börn og unglinga (í langflestum tilfellum)
  • Mikilvægt er að huga vel að fæðuvali í tengslum við æfingar og keppni

Fyrir æfingu/keppni:

  • Staðgóð máltíð um 6 klst. fyrir
  • Léttari kolvetnarík máltíð 2-3 klst. fyrir
    • Dæmi: Samloku/flatköku, pasta með tómatsósu, morgunkorn, ávaxtasafa, ávöxt ...
  • Ekki borða skemur en 1 klst. fyrir
  • Drekka ríflega með máltíðum
  • Borða eitthvað sem maður “þekkir”

Á æfingu eða í keppni

  • Ef eitthvað, fá sér þá kolvetnaríka fæðu. Banani í hálfleik er klassískur
  • Drekka nóg vatn til að bæta upp vökvatap

Eftir æfingu/keppni

  • Drekka vel til að bæta upp vökvatap
  • Endurnýja orkubirgðir vöðvanna, helst á fyrstu 2 klst eftir æfingu. Borða kolvetnaríka fæðu 20-30 mín eftir átök (t.d. ávöxtur), svo staðgóða máltíð sem fryst (blanda af kolvetnum og próteinum)
  • Sérstaklega mikilvægt ef keppni heldur áfram daginn eftir
Nánar