Önnur vika leikjanámskeiðsins er í gangi hjá okkur núna og hér má sjá dagskrá vikunnar.

Á miðvikudeginum er hjólaferð í Tunguskóg og þann dag koma allir á hjólum. Gott er að taka með sér auka sokka og jafnvel aukabuxur því krakkarnir munu mjög líklega að vaða aðeins í ánni.

Á fimmtudaginn er sundferð og þá verða allir að mæta með sundfötin sín.

Á föstudaginn ætlum við svo að drullumalla og þá má mæta með fötur, skóflur og allt það sem ykkur dettur í hug til að gera drullukökuveislu sem glæsilegasta. Þann dag er mjög sniðugt að vera ekki í sparifötunum og gera ráð fyrir að koma ekki hreinn heim.

Nánar

 

Siglingaklúbburinn Sæfari verður með siglinga- og útivistarnámskeið fyrir 9-14 ára börn. Boðið verður upp á 5 eins vikna námskeið á tímabilinu 10. júní til 16. ágúst.  Námskeið hefst á mánudegi og lýkur á föstudegi og stendur frá kl. 9-14.

Námskeiðin verða í aðstöðu Sæfara við Suðurtanga. Á námskeiðinu læra börnin m.a. á kayak og seglbáta en einnig verður farið í fjallgöngur, útilegu og hjólaferð (á eigin hjólum), föndrað úr fjörunni og farið í leiki. Hámarksþátttökufjöldi er 10-12 börn. Verð er 16.000 kr. Umsjónarmaður er Elín Marta Eiríksdóttir. Skráning og nánari upplýsingar í síma 8934289 eða á póstfanginu elineiriks@gmail.com.


Námskeiðsvikurnar verða sem hér segir frá kl. 9-14:

10.-14. júní

24.-28. júní

1.-5. júlí

8.-12. júlí

12.-16. ágúst

Nánar

Fyrsta vika leikjanámskeiðs HSV þetta sumarið hefst mánudaginn 3.júní. Enn er hægt að skrá börnin, sjá leiðbeiningar í síðustu frétt.

Nánar

Í júní verður íþrótta- og leikjanámskeið fyrir börn sem eru að ljúka 1.-4.bekk í grunnskóla. Fyrsta námskeiðið hefst mánudaginn 3.júní og þá viku verður námskeiðið á mánudegi og þriðjudegi frá kl.13-16 og hittumst við á sparkvellinum við Grunnskólann á Ísafirði. Aðra virka daga út júní verður námskeiðið frá kl.9-12 og þá er mæting við Íþróttahúsið á Torfnesi. Krakkarnir geta fengið vistun frá kl.8:30 án skipulagðrar dagskrár. Hvert námskeið stendur í eina viku. Leikjanámskeiðið verður með fjölbreyttu sniði, farið verður í leiki, fjöruferðir, hjólaferðir, fjallgöngur, sund, ýmsar íþróttagreinar reyndar og margt fleira. Nesti verður tekið um miðjan morgun og koma allir með hollt og gott nesti að heiman. Hægt er að velja um að vera 1, 2, 3 eða 4 vikur. Ef valdar eru fleiri en ein vika þá þurfa þær ekki endilega að vera samliggjandi, t.d. er hægt að vera fyrstu vikuna og svo síðustu.

Verð fyrir leikjanámskeiðið er eftirfarandi:

  • 1 vika kostar 4500 kr.
  • 2 vikur kosta 7000 kr.
  • 3 vikur kosta 9000 kr,
  • 4 vikur kosta 12000 kr.

 

Skráning á námskeiðið er í skráningarkerfi HSV og er hægt að fara inn á það með því að ýta á tengil (Skráning) hér vinstra megin á síðunni eða sjá leiðbeiningar hér neðar.  Einnig er hægt að senda tölvupóst á ithrottaskoli@hsv.is með skráningu en óskað er eftir því að skráningarkerfið sé notað.  Þegar skráð er í gegnum skráningarkerfið er gott að láta vita hvaða vikur iðkandinn ætlar að vera og hægt að setja það í reitinn "athugasemdir" í skráningarkerfinu. Frekari upplýsingar veitir Salome í síma 896-4668. Endilega finnið líka Facebook-síðuna okkar Íþróttaskóli HSV.

 

Skráning iðkenda á leikjanámskeið HSV

  1. Fara inn á heimasíðu HSV, www.hsv.is
  2. Fara í skráning iðkenda vinstra megin á síðunni
  3. Velja „Nálgastu skráningarkerfið hér“
  4. Þá kemur að innskráningarglugganum
  5. Til að geta skráð sig inn þarf fyrst að haka í samþykkja skilmála
  6. Þegar búið er að skrá sig inn koma upp nöfn fjölskyldumeðlima. Ef einungis ykkar nafn kemur upp þarf að fara í „nýr iðkandi“ og velja það barn sem þið viljið skrá.
  7. Veljið „Námskeið/flokkar í boði“ aftast í línu barnsins (ath að það gæti þurft að skrolla til hliðar á síðunni til að sjá þetta)
  8. Þá kemur upp það sem er í boði og til að skrá í Íþróttaskóla HSV skal fara í „skráning“ aftast í línunni (ath að það gæti þurft að skrolla til hliðar á síðunni til að sjá þetta)
  9. Þá kemur að því að velja greiðslufyrirkomulag og klára skáningu (muna að haka við samþykkja skilmála)

 

Nánar

Nú erum við að rúlla upp síðustu viku Íþróttaskóla HSV veturinn 2012-2013. Á föstudaginn verður lokahóf Íþróttaskólans haldið á sparkvellinum við Grunnskólann á Ísafirði og er ætlunin að byrja klukkan 13. Þar verða í boði grillaðar pylsur, safi og eitthvað sprell fyrir krakkana og hvetjum við alla sem tekið hafa þátt í íþróttaskólanum þennan veturinn að koma og leika sér með okkur. Ekki verður hefðbundin dagskrá samkvæmt stundaskrá Íþróttaskólans þennan dag. Ég vil endilega minna krakkana sem eru að klára 4.bekk á að koma kl.13 á föstudaginn og fá afhenta útskriftargjöfina sína fyrir dugnaðinn í íþróttaskólanum í vetur . Þeir sem ekki geta mætt þennan dag og tekið við útskriftargjöfinni geta haft samband við mig og ég komið íþróttagöllunum til ykkar eða þið nálgast þá hjá mér.

Að lokum vil ég þakka ykkur og börnunum samveruna í vetur og vonast til að sjá þau sem flest á leikjanámskeiði HSV í sumar og/eða í Íþróttaskólanum næsta haust.

Kveðja, Salome.

Nánar