Aldrei hafa fleiri iðkendur verið skráðir í Körfuboltabúðir Vestra en þær hefjast í íþróttahúsinu á Torfnesi á morgun, þriðjudag. Búðunum lýkur með veglegri kvöldvöku á laugardagskvöld og gestir halda svo heim á sunnudag. Búðirnar fagna tíu ára afmæli í ár og eru stærstu búðir sinnar tegundar á landinu.

Alls eru 180 iðkendur á aldrinum 10-16 ára skráðir til leiks í stóru búðirnar en einnig taka 20-30 yngri iðkendur þátt í svokölluðum Grunnbúðum sem fram fara samhliða stóru búðunum. Þær eru ætlaðar börnum í 1.-3. bekk. Um þriðjungur iðkenda kemur úr röðum Vestra en mikill meirihluti eru gestir úr íþróttafélögum um allt land. Með iðkendum fylgir jafnan stór hópur foreldra og forráðamanna og heilu fjölskyldurnar nota jafnvel tækifærið til að koma vestur í smá frí.

Mikil aðsókn hefur verið hin síðustu ár og seldust búðirnar í ár upp á skömmum tíma í vetur auk þess sem langir biðlistar mynduðust. Fram til þessa hafa búðirnar eingöngu verið haldnar í íþróttahúsinu á Torfnesi en til að mæta hinni miklu aðsókn verður íþróttahúsið í Bolungarvík nú nýtt undir búðirnar í fyrsta sinn. Rútuferðir verða á milli húsanna.

Iðkendum er skipt í tíu mismunandi æfingahópa eftir aldri og getu. Átján þjálfarar skiptast á að þjálfa hópana – allt eftir því hvaða tækniatriði farið er yfir hverju sinni. Yfirþjálfari búðanna annað árið í röð er Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells. Þjálfararnir koma víða að hér innanlands en einnig koma þjálfarar sérstaklega frá Spáni, Serbíu og Bandaríkjunum. Þjálfunin er í hæsta gæðaflokki og þykja búðirnar þær bestu sinnar tegundar á landinu og þótt víðar væri leitað.

Framkvæmdastjórn, sem í sitja níu manns, ber hitann og þungann af skipulagi búðanna en einnig kemur til kasta fjölda sjálfboðaliða sem sinna ólíkum verkefnum á meðan á búðunum stendur. Gestir búðanna gista flestir á heimavist Menntaskólans á Ísafirði þótt nokkuð sé um að iðkendur og fjölskyldur þeirra gisti úti í bæ. Mötuneyti skólans, sem rekið er af búðunum, mun þjóna  hátt á þriðja hundrað manns alla daga búðanna. Einnig er rekin sjoppa á Torfnesi. Sjálfboðaliðar búðanna koma flestir úr röðum foreldra Vestrabarna og má með sanni segja að þar sannist máltækið að margar hendur vinni létt verk.

Nú er bara að vona að veðrið leiki við Ísfirðinga og gesti þeirra næstu daga svo bærinn nái að skarta sínu fegursta á meðan á búðunum stendur.

Hægt er að fylgjast með fréttum og myndum úr búðunum á facebook síðu búðanna Körfuboltabúðir Vestra.

Nánar

HSV í samstarfi við Ísafjarðarbæ eru með dagskrá í Hreyfiviku UMFÍ í ár líkt og síðustu ár. Dagskráin er fjölbreytt að venju og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Hægt er að fara út að hlaupa, taka morgungöngu upp í Hvilft, fari fjallahjólatúr, prófa útijóga, fljóta í Musterinu og prófa kajak. HSV hvetur bæjarbúa til að prófa viðburði þessa vikuna.

Öll dagskráin:

Sunnudagur 27. maí

Kl. 10.00          FunRun á vegum Ægis, nemendafélags Háskólaseturs Vestfjarða.

Komið og hlaupið, skokkið, gangið eða sleppið þessum 5,8 km klædd sem uppáhalds sjávardýrið ykkar! Þátttaka er ókeypis en þátttakendur eru hvattir til að styrkja Björgunarfélag Ísafjarðar (SAR) og skráningar er krafist við komu. Skráning er möguleg frá [8:00 am-9:55am] við rásmarkið (fyrir framan bókasafnið). https://www.facebook.com/events/792875787584036/

 

Mánudagur 28. maí

Kl. 06.00          Gönguferð upp í Naustahvilft á vegum Gönguhóps Ferðafélags Ísfirðinga. Lagt af stað kl. 6 frá bílaplani neðan Hvilftar.

Kl. 18.15          Prufutími hjá hlaupahópnum Riddarar Rósu. Æfingar henta jafnt byrjendum sem lengra komnum. Mæting við íþróttahúsið á Torfnesi.

 

Þriðjudagur 29. maí

Kl. 17.00          Létt fjallahjólaferð með Gullrillunum, mæting við Íþróttahúsið Torfnesi.

Hjólað verður upp Skíðaveginn upp að Skíðheimum og svo fjallabaksleiðina til baka með ýmsum krókum og klækjum. Gullrillur sjá um leiðsögn, leiðarval og tæknileiðbeiningar. Hvetjum alla til að mæta. Ferðin ætti að henta öllum, bæði byrjendum í fjallahjólreiðum sem lengra komnum. Fjallahjól með framdempun henta vel í ferðina og svo allir með hjálm á hausnum svo toppstykkið verði í lagi. Þetta gæti verið byrjunin að frábæru fjallahjólasumri

 

Miðvikudagur 30. maí

Kl. 18-19:00    Útijóga í Blómagarðinum á Austurvelli. Jóga-Ísafjörður býður bæjarbúum í jóga. Þátttakendum er bent á að taka með sér dýnu eða teppi.

 

 

Fimmtudagur 2. Júní

Kl. 18.15          Prufutími hjá hlaupahópnum Riddarar Rósu. Æfingar henta jafnt byrjendum sem lengra komnum. Mæting við íþróttahúsið á Torfnesi.

 

Laugardagur 2. júní

Kl. 9.30            Prufutími hjá hlaupahópnum Riddarar Rósu. Æfingar henta jafnt byrjendum sem lengra komnum. Mæting við íþróttahúsið á Torfnesi.

Kl. 10.00          Samflot í Sundlaug Bolungarvíkur milli kl. 10:00 og 11:00.
„Einstök slökun í þyngdarleysi vatnsins í hugljúfu tónaflóði og lífsljósið logar skært sem aldrei fyrr.“

 

Sunnudagur 3. júní

Kl. 11.00          Kajakróður með Sæfara á Pollinum. Félagsmenn Sæfara veita leiðsögn og sjá um fararstjórn. Leiga á búnaði 2.000 kr.

 

 

Að auki er frítt í sund í sundlaugum Ísafjarðarbæjar alla daga Hreyfivikunnar.

Nánar

Miðvikudaginn 23. maí kl. 17 heldur HSV fund með frambjóðendum af listunum þremur sem bjóða fram í Ísafjarðarbæ. Frambjóðendum gefst kostur á að fara yfir áherslumál framboðanna er varðar íþróttastarf í sveitarfélaginu og uppbygging mannvirkja. Hvert framboð verður með stutta framsögu í byrjun fundar og síðan verða umræður og fyrirspurnir. Fundi líkur ekki seinna en kl. 18.30

 Fundurinn verður haldinn í Vestrahúsi, Þróunarsetursmegin (á teppagangi).

 Vonumst við til að forsvarsmenn íþróttafélaga og aðrir áhugamenn um íþróttastarf fjölmenni

Nánar

Í upphafi ársþings í síðustu viku var skrifaði Guðný Stefanía Stefánsdóttir undir samninga fyrir hörn afreksmannasjóðs við tvo unga og efnilega iðkendur. Samningarnir fela í sér að Afreksmannasjóður greiðir mánaðarlegan styrk til íþróttafólksins í eitt ár. Um var að ræða Þórð Gunnar Hafþórsson 16 ára knattspyrnumann í Vestra og Önnu Maríu Daníelsdóttur gönguskíðkonu hjá Skíðafélagi Ísfirðinga.

Tveir aðrir ungir afreksmenn munu svo skrifa undir á næstu dögum. en það eru þau Auður Líf Benediktsdóttir blakari í Vestra og Albert Jónsson gönguskíðamaður í SFÍ.

Nánar

Fráfarandi formanni HSV Guðnýju Stefaníu Stefánsdóttur var á ársþingi HSV sæmd gullmerki ÍSÍ fyrir gott og öflugt starf. Það var Ingi Þór Ágústsson stjórnarmaður hjá ÍSÍ og fyrrum formaður HSV sem afhenti Guðnýju merkið. HSV þakkar Guðnýju hennar góðu störf fyrir sambandið og hlakkar til áframhaldandi samstarfs í Afreksmannasjóðs HSV þar sem Guðný mun sitja áfram.

Nánar