Á heimasíðu ÍSÍ er að finna ábendingu um áhugaverða síðu þar sem bent er á æfingar sem geta fyrirbyggt meiðsli og álagseinkenni í hinum ýmsu íþróttagreinum:

Vefsíðan fittoplay.org er einstaklega áhugaverð síða sem snýr meðal annars að fyrirbyggjandi æfingum gegn meiðslum íþróttafólks. Þar má finna upplýsingar um algeng meiðslí í fjöldamörgum íþróttagreinum greint niður á líkamshluta. Þar má einnig sjá æfingar sem koma sér vel fyrir íþróttafólk í endurhæfingu.

Að vefsíðunni og smáforritinu „Get Set - Train Smarter“ standa Alþjóðaólympíunefndin (IOC) og rannsóknarsetrið The Oslo Sports Trauma Research Center í Noregi, sem tóku höndum saman í þeim tilgangi að fækka íþróttameiðslum með því að bjóða íþróttafólki upp á fyrirbyggjandi æfingar beint í símann. Vefsíðan og smáforritið eru einstaklega notendavæn, enda stutt og hnitmiðuð myndbönd og stuttur texti meginundirstaðan. Sjá má allar æfingarnar í myndböndum og stuttum texta um hvernig gera má æfinguna rétt. Vista má öll myndböndin og skoða án nettengingar. 

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hvetur íþróttafólk og aðra til þess að skoða vefsíðuna fittoplay.org.