Ársþing HSV fór fram í gær miðvikudaginn 24. maí á 4. hæð stjórnsýsluhússins á Ísafirði. Hjördís Þráinsdóttir setti þingið, það tuttugasta og þriðja. Kristján Kristjánsson var kosinn þingforseti og stjórnaði hann þinginu af mikilli festu og röggsemi. Þátttakendur í þinginu voru tæplega 30.

Guðmunda Ólafsdóttir úr stjórn UMFÍ ávarpaði þingið, og einnig Daníel Jakobsson sem situr í framkvæmdarstjórn ÍSÍ.

Fyrir þinginu lágu tillögur um lagabreytingar. Breytingarnar sneru að 13 gr. laga, um skipun stjórnar. Stjórn HSV lagði fram tillögu um að fækka stjórnarmeðlimum, íþróttafélagið Kubbi sendi inn breytingartillögu á sömu grein, breytingin fæli í sér að aðildarfélög sem hafi 150 eða fleiri félaga tilnefni einn úr sínum röðum til að sitja í stjórn HSV.

Stjórn HSV dró tillögu sína til baka vegna þess að framboð til stjórnar var vel mannað fyrir þing og því ekki tímabært að fækka stjórnarmeðlimum. Tillaga Kubba var einnig dregin til baka af flutningsmanni hennar af sömu ástæðu.

Samþykkt var lagabreytingartillaga á 11. grein laga sem felur í sér að kosnir verði 3 aðilar í uppstillingarnefnd til eins árs.

Á þinginu lagði stjórn HSV til að Klifurfélagi Vestfjarða yrði veitt innganga í HSV. Félagið hefur þegar skilað inn tilskildum gögnum sem 3. grein laga kveður á um. Klifurfélag Vestfjarða er áhugamannafélag, tilgangur þess er að stuðla að framgangi klifuríþrótta á Vestfjörðum og auka áhuga fólks á hvers kyns klettaklifri og grjótglímu á Vestfjörðum sem álitlegu svæði til að stunda þessa iðju.

Félagið stóð fyrir byggingu á klifuraðstöðu innandyra á Ísafirði og er ætlunin að haf þar reglubundnar æfingar, námskeið og jafnvel þjálfa unglinga til þess að geta keppt í innanhúsklifri. Innahúsklifur sem íþrótt nýtur mikilla og síaukinna vinsælda.

Ný stjórn var kosin á þinginu, úr stjórn gengu Elísa Ósk Jónsdóttir, Ásgerður Þorleifsdóttir og Þóra Marý Arnórsdóttir.

Anton Helgi Guðjónsson er ný kjörinn formaður HSV, tveir voru kosnir í aðalstjórn til tveggja ára, þau Páll Janus Þórðarsson og Ingibjörg Elín Magnúsdóttir. Í varastjórn voru kosin Sigurður Óli Rúnarsson, Magnús Þór Bjarnason og Eydís Rún Jónsdóttir.

Stjórn HSV er þannig skipuð:

Anton Helgi Guðjónsson – formaður

Hjördís Þráinsdóttir

Axel Sveinsson

Ingibjörg Elín Magnúsdóttir

Páll Janus Þórðarson

Varastjórn:

Sigurður Óli Rúnarsson

Magnús Þór Bjarnason

Eydís Rún Jónsdóttir