Guðmundur Valdimarsson, Sóphus Magnússon, Valur Richter, Jens Kristmannsson, Tryggvi Sigtryggsson og Guðný Stefanía Stefánsdóttir formaður HSV
Guðmundur Valdimarsson, Sóphus Magnússon, Valur Richter, Jens Kristmannsson, Tryggvi Sigtryggsson og Guðný Stefanía Stefánsdóttir formaður HSV

Á ársþingi HSV í maí voru fimm einstaklingar sæmdir gull og silfurmerkjum HSV fyrir ötult starf í þágu íþróttahreyfingarinnar.

Silfurmerki hlaut Sóphus Magnússon en hann hefur um langt skeið keyrt íþróttafólk í keppnis- og æfingaferðir á vegum aðildarfélaga HSV. Hann er nú að selja rútur sínar og hverfa til annara starfa og þótti stjórn HSV rétt við þau tímamót að þakka Sophusi fyrir hans elju og alúð gangvart okkar íþróttaiðkendum á faraldsfæti. Ef þú googlar Sóphus færðu að vita að hann er Strandamaður, vill hvergi búa annarsstaðar en fyrir vestan og hann borðar skrítinn mat. Þar kemur hinsvegar hvergi fram að í ferðum hans með íþróttakrakka heldur hann uppi stemmingu tímunum saman með sögum af fólki og fyrirbærum svo farþegar á öllum aldri hafa gaman af. Það kemur heldur ekki fram að með mýkt og lagni fær hann krakkana til að nota ruslapokana í bílnum, spenna beltin og sitja kyrr í sætum. Hvergi kemur heldur fram að hann sýnir ávalt einstaka þjónustulipurð og telur ekki eftir sér að skutlast hingað eða þangað ef þörf reynir nú eða líta eftir krakkahóp ef þannig ber við. Fyrir svo utan að hann kom alltaf með lægstu verðin. Eru Sophusi hér með færðar innilegar þakkir fyrir hans alúð við okkar iðkendur og vel unnin störf.

Einnig hlutu silfurmerki skotíþróttamennirnir Guðmundur Valdimarsson og Valur Richter.

Guðmundur Valdimarsson hefur verið formaður Skotíþróttafélags Ísafjarðar um langa hríð. Undir hans stjórn hefur félagið starfað skipulega og af krafti. Nýverið tók félagið í notkun nýja inniaðstöðu sem væntanlega eflir og styrkir starfið enn frekar.

Valur Richter á að baki marga tímana fyrir skotíþróttafélagið. Hann hefur verið vakinn og sofinn yfir starfinu og þá ekki hvað síst allri þeirri vinnu sem liggur að baki í nýju húsnæði félagsins í stúkunni á Torfnesi.

Það verður gaman að fylgjast með hvernig þeir og þeirra félag eykur starf sitt með bættri aðstöðu. Nú þegar er komin bogfimideild og vonir standa til um að auka unglingastarf að auki. En þeir eru ekki einungis vinnumenn, þeir eru einnig keppnismenn og sem sótt hafa marga titla um árabil fyrir sitt félag. Íþróttastarf gengi seint upp ef ekki væri fyrir menn eins og Gumma og Val sem leggja mikið af mörkum fyrir sitt félag.

Gullmerki HSV fengu tveir einstaklingar sem hafa lengi unnið mikilvægt starf fyrir íþróttahreyfinguna á Ísafirði.

Annarsvegar Jens Kristmannson sem á langan lista af störfum fyrir íþróttastarf hér í bæ. Han hefur verið iðkandi, þjálfari, fararstjóri, dómari, stjórnarmaður, formaður. Staðið á línunni á leikjum, upp í fjalli á skíðamótum, aldrei á skíðum samt. Hann hefur einnig starfað á landsvísu setið meðal annars í stjórn ÍSÍ. Fyrir þetta starfs sitt hefur ÍSÍ sæmt hann heiðurskrossi ÍSÍ og kjörið hann heiðursfélaga ÍSÍ. Jens er Harðverji fram í fingurgóma og hefur unnið mikið og gott starf til að varðveita merka sögu þess gamla félags og afhent það skjalasafni Ísafjarðar til varðveislu. Harðverjinn Jens taldi það samt ekki eftir sér að aðstoða hina Nýju Vestramenn við undirbúningsvinnu að stofnun þess félags og aðstoðaði í hvert sinn er leitað var í hans reynslubanka. Kærar þakkir Jenni fyrir þitt góða og mikla starf, það verður seint fullþakkað.

 Hinn gullmerkjahafinn er Tryggvi Sigtryggsson sem hefur starfað að íþrótta- og æskulýðsmálum frá unga aldri. Hann hefur lagt stund á ýmsar greinar íþrótta til keppni, fótbolta um árabil og síðan einnig badminton og golf. Til heilsubótar og ánægju er svo skíðin og hlaup og gönguferðir. Tryggvi hefur þó ekki bara lagt stund á íþróttir sér til ánægju. Hann hefur frá unga aldri lagt sitt af mörkum í félagsstarfið sem fylgir íþróttafélögum og íþróttastarfi og hefur unnið að framgangi íþróttamála á löngum ferli. Hefur hann meðal annars verið í stjórn og eða formaður gamla Vestra, knattspyrnuráðs Ísafjarðar, ÍBÍ, Golfkúbbi Ísafjarðar þar sem hann hætti á síðasta ári sem formaður eftir langa og farsæla setu. Einnig hefur Tryggvi setið í nefndum Ísafjarðarbæjar sem sinna íþrótta og æskulýðsmálum. Tryggvi hefur því lagt mikla vinnu að baki fyrir íþróttahreyfinguna hér í bæ og fyrir það þökkum við af heilum hug.

HSVóskar þessum heiðursmönnum til hamingju og  þakkar þeim öllum fyrir vel unnin störf.