Nú er hafinn á ný fjallgönguleikurinn Fjallapassinn á norðanverðum Vestfjörðum. Leikurinn hefur verið í gangi yfir sumartímann árin 2007, 2008 og 2010 og notið mikilla vinsælda. Markmið Fjallapassans er að hvetja einstaklinga og fjölskyldur til að nýta sér þær leiðir til heilsueflingar sem felast í náttúrunni. „Með þátttöku í skemmtilegum leik getur hver og einn fundið fjall við sitt hæfi til að klífa og eflt um leið sitt líkamlega og andlega þrek, svo ekki sé talað um þá mikilvægu samverustund sem fjölskyldur og vinir geta átt með þátttökunni,“ segir í tilkynningu.

Í stuttu máli gengur leikurinn út á það að klífa ákveðin fjöll og stimpla í passa með stimplum sem er að finna á fjöllunum. Því næst er passanum skilað inn og verða nöfn heppinna göngugarpa dregin út að leik loknum. Þær gönguleiðir sem eru í Fjallapassanum í ár eru Naustahvilft, Náman í Syðridal í Bolungarvík, Miðfell, Þjófaskarð, Kaldbakur og Sauratindar. 

Eiga þátttakendur að fara að minnsta kosti fjórar af þessum sex gönguleiðum áður en þeir skila passanum sínum inn. Leikurinn stendur til 15. september og vegleg verðlaun í boði fyrir heppna þátttakendur. 

Að leiknum standa Ásgerður Þorleifsdóttir og Nanný Arna Guðmundsdóttir í samvinnu við Héraðssamband Vestfirðinga og Heilsueflingu í Ísafjarðarbæ. 

Allar nánari upplýsingar um leikreglur, hvar hægt er að nálgast passana, verðlaun og fleira er að finna á heimasíðu leiksins www.fjallapassinn.is og á Facebooksíðu Fjallapassans.