Fjallapassinn hefur farið gríðalega vel af stað og er nú búið að prenta annað upplag af pössunum.  Þeir ættu nú að vera komnir Bensínstöðina N1 Ísafirði, Hamraborg og upplýsingamiðstöðina í Edinborgarhúsinu. 

Fjallapassinn er skemmtilegur fjallgönguleikur á vegum Heilsueflingar í Ísafjarðarbæ, í samvinnu við Héraðssamband Vestfirðinga.  Leikurinn gengur út á að þú stimplir í fjallapassann þinn með stimplum sem eru í kössum eða vörðum á gönguleiðunum. Þegar þú hefur farið a.m.k. 4 gönguleiðir af þeim 6 sem eru í fjallapassanum, skilar þú honum inn. Allir passarnir fara svo í pott og verða nöfn heppinna göngugarpa dregin út að leik loknum og eru vegleg verðlaun í boði.
Fjallapassinn hefur verið mjög vinsæll undanfarin ár og hafa verið farnar rúmlega 400 fjallgöngur í tengslum við leikinn.  Þetta gerir fjallapassaleikinn eitt stærsta og fjölmennasta heilsueflingarátak í Ísafjarðarbæ þó víða væri leitað.  Heilsuefling í Ísafjarðarbæ og HSV hvetja alla að taka þátt í leiknum enda um mjög hollan, skemmtilegan og fjölskylduvænan leik að ræða.
Frekari upplýsingar um leikinn er að sjá á heimasíðu leiksins www.fjallapassinn.is