Fjölskyldan á fjallið er landsverkefni UMFÍ og hluti af verkefninu Göngum um Ísland.  Tilgangur verkefnisins er að fjölskyldur fari saman í fjallgönguferðir og verji því tíma sama um leið og lögð er rækt við útivist og líkamsrækt.  Þau fjöll sem sambandsaðilar UMFÍ hafa lagt til að þátttakendur gangi upp eru flest frekar auðveld uppgöngu en miserfið.  Póstkassa með gestabókum er að finna á rúmlega tuttugu fjöllum víðsvegar um landið.  Eru allir þátttakendur hvattir til að skrifa nafn sitt í gestabækurnar því heppnir göngugarpar verða dregnir úr þeim hópi og þeir veglega verðlaunaðir.  Frekari upplýsingar um fjöllin og gönguleiðirnar er að finna á gagnvirku landakorti á vefnum www.ganga.is .

HSV og Ferðafélag Ísfirðinga ætla á sunnudaginn 20.júní að taka höndum saman og fara í göngu á Kaldbak við Dýrafjörð eitt af tveimur fjöllum sem eru á svæði HSV í fjölskyldan á fjallið.  Hitt fjallið er Sauratindar sem eru upp af Sauradal og Arnadal (sjá á korti www.ganga.is).  Í ferðinni verður gengið með póstkassa upp á Kaldbak þar sem fólk getur ritað nafn sitt í sumar og tekið þátt í fjölskyldan á fjallið leiknum.  Fljótlega verður svo gengið með póstkassann upp á Sauratinda.

Hisst verður við íþróttahúsið Torfnesi kl 11:00 sunnudaginn 20.júní og þar verður sameinað í bíla.  Keyrt verður yfir í Arnarfjörð og keyrt inn Fossdal.  Gert er ráð fyrir að ganga af stað úr Fossdal kl 13:00.

HSV og Ferðafélag Ísfirðinga hvetur alla sem hafa áhuga á að mæta og taka þátt í göngunni.