Á undanförnum sex árum sem ég hef starfað í stjórn HSV, þar síðustu þrjú sem

formaður hef ég átt orðastað við hundruðir manna, þjálfara, foreldra, iðkenda og

forsvarsmanna í íþróttahreyfingunni í Ísafjarðarbæ.

Smám saman hefur það runnið upp fyrir mér að við erum á villigötum. Við erum á

villigötum í rekstri og starfsemi í málefnum yngstu iðkendanna.

Það er mín staðfasta trú að það kerfi sem við höfum byggt upp hjá aðildarfélögum HSV

með mikilli sérhæfingu frá unga aldri og of mikilli áherslu á keppni og afrek sé rangt og

því eigum við að breyta. Ég tel jafnframt að kerfið sem heldur utanum þjálfun og keppni

yngstu iðkendanna sé of dýrt. Það er of umfangsmikið og það leggur of miklar kröfur á

stjórnendur og foreldra í að afla fjár til að halda starfinu úti, í stað þess að beina kröftum

þeirra í það sem skiptir máli að byggja upp betri einstaklinga í okkar unga fólki.

Það þarf margt að breytast til að hægt sé að snúa þessari þróun við. Fyrst og fremst

þarf hugarfarsbreytingu. Svo þarf samstarf að stóraukast milli félaga. Loks þarf að

endurhugsa þarfir okkar yngstu iðkenda í samræmi við þarfir og óskir foreldra. Við

þurfum að spyrja okkur; Hvað er það í raun og veru sem skiptir mestu máli í starfsemi í

íþróttum yngstu barnanna? Þeir tímar sem framundan eru í okkar samfélagi gera auknar

kröfur á okkur sem eru í forsvari fyrir þessa grunnþjónustu sem íþróttastarf barna og

unglinga er. Það er ábyrgð okkar allra að skapa aðstæður þannig að allir geti fengið

tækifæri á að þroska líkama og hug innan vébanda íþróttahreyfingarinnar.

Þessar hugleiðingar mínar sem ég hef nú lýst fyrir ykkur eru ekki árás á núverandi starf

aðildarfélaga eða á það góða fólk sem starfar innan þeirra. Það fólk á allan heiður skilið

fyrir fórnfúst starf. Ómetanlegt starf fyrir samfélagið. Ég er hinsvegar að kalla eftir nýrri

hugsun, nýju hugarfari. Það er von mín að okkur takist að endurskipuleggja íþróttastarf

yngstu iðkenda okkar þannig að sérhæfing minnki, kostnaður foreldra minnki verulega

og gæðin aukist. Ég er amk. tilbúinn að leggja mitt af mörkum.

Jón Páll Hreinsson formaður HSV