Hermann Níelsson var í gær sæmdur gullmerki Ungmennafélags Íslands fyrir störf sín í þágu ungmennafélagshreyfingarinnar og íþrótta í landinu. Stjórn UMFÍ samþykkti á fundi í september að afhenda Hermanni merkið.

Gunnar Gunnarsson, formaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) og stjórnarmaður í UMFÍ, afhenti Hermanni merkið á Landsspítalanum við Hringbraut þar sem Hermann dvaldi vegna illvígra veikinda.

Hermann, sem er fæddur á Ísafirði árið 1948, var formaður UÍA árin 1977-1985 og framkvæmdastjóri sambandsins í þrjú ár á undan. Eftir að hafa útskrifast sem íþróttakennari frá Laugarvatni fluttist Hermann austur á Hérað til að kenna íþróttir við Alþýðuskólann á Eiðum.

Hann hóf þegar afskipti af starfi UÍA og hélt þeim áfram, meðal annars með uppbyggingu maraþons á Egilsstöðum, þótt hann hætti sem formaður. Þá var hann um tíma formaður knattspyrnudeildar Hattar á Egilsstöðum.

Hermann kenndi einnig við Bændaskólann á Hvanneyri, Menntaskólann á Egilsstöðum og Menntaskólann á Ísafirði. Á Ísafirði var hann á sínum tíma einn af stofnendum Körfuknattleiksfélags Ísafjarðar og síðar formaður Knattspyrnufélagsins Harðar þar sem hann starfaði ötullega að uppbyggingu glímuíþróttarinnar þar.

Stjórn UMFÍ sem og Ungmennafélagshreyfingin sendir Hermanni og fjölskyldu hans góðar kveðjur.