Í desember samþykkti stjórn HSV að óska eftir því við Ísafjarðarbæ að komið yrði til móts við ungt afreksfólk í sveitarfélaginu á aldrinum 14-21 árs með sumarvinnu.

Ungt afreksfólk í íþróttum sem valið hefur verið til að keppa fyrir landslið Íslands í sinni íþróttagrein er gjarnan upptekið stóran part sumars í æfinga og keppnisferðum. Sú fjarvera frá heimabyggð veldur þeim erfiðleikum við að stunda vinnu vegna fjarvista og einnig er erfitt að fá vinnu þegar fyrirséð er að viðkomandi þurfi mikið frí til að sinna ástundun og æfinga- og keppnisferðum.

Óskaði stjórn HSV því eftir að Ísafjarðarbær kæmi til móts við þessi ungmenni með eftirfarandi hætti:

  • Þau verði ráðin til sumarvinnu hjá Ísafjarðarbæ sem hentar þeirra aldri og reynslu og sinni þeirri vinnu þegar þau geta vegna æfinga og keppni.
  • Þegar þau fara í æfinga- eða keppnisferðir vegna sinnar íþróttaiðkunar haldi þau sínum launum þrátt fyrir fjarveru

 

Skilyrði til þátttöku í verkefninu:

  • Að vera á aldrinum 14-25 ára.
  • Að vera valin í landslið, unglingalandslið eða B landslið á vegum viðkomandi sérsambanda.
  • Að þjálfari þeirra votti að þau stunda sína íþrótt af fagmennsku og metnaði.

Hugmyndin er því að Ísafjarðarbær ráði þessa iðkendur í vinnu og þau haldi launum sínum þegar þau þurfa frí til að æfa og keppa fyrir Íslands hönd. Miðað er við að þau séu í þannig störfum hjá sveitarfélaginu að auðvelt sé fyrir þau að komast frá.

 

Bæjarstjórn hefur nú samþykkt þessa beiðni. Vonandi verður þetta til að auðvelda okkar unga afreksfólki að afla sér tekna yfir sumarið án þess að það bitni á þeirra íþróttaferli.