Íþróttaskóli HSV hefst mánudaginn 27. ágúst.  Íþróttaskólinn er samvinnuverkefni HSV, aðildafélaga HSV og Ísafjarðarbæjar.  Íþróttaskólinn er ætlaður börnum í 1-4. bekk í grunnskólum Ísafjarðarbæjar og geta öll börn á þessum aldri skráð sig í skólann og tekið þátt.  Íþróttaskóli HSV mun leggja áherslu á grunnþjálfun barna ásamt því að þau fái þjálfun í flestum þeim íþróttagreinum sem í boði eru á eldri stigum aðildarfélaga HSV.  Á haustmisseri er skólanum skipt upp í þrjá hluta þ.e. grunnþjálfun, boltaskóla og sund.  

Í grunnþjálfun er áhersla lögð á hreyfingu og hreyfiþroska barna.  Fjölbreyttar æfingar verða í boð, farið í leiki, þrautir, fimleika, hopp, hlaup, köst og margt fleira.  Grunnþjálfun er í boði tvisvar í viku.

Boltaskóli:  Í boltaskólanum verða boltagreinum skipt upp í tímabil og þjálfuð ein grein í einu.  Boltagreinarnar í skólanum eru knattspyrna, blak, körfuknattleikur og handknattleikur.   Geta börnin því fengið að kynnast öllum þessum greinum, æft hverja grein og náð góðum tökum á hverri grein.  Boltaskóli er í boði tvisvar í viku.

Sund:  Í íþróttaskólanum verður almenn sundþjálfun í boði og verða æfingar
tvisvar í viku undir stjórn þjálfara Vestra. Athugið að vegna lokunar á Sundhöll Ísafjarðar hefst sundhluti skólans 11. september.

Yfirþjálfari íþróttaskólans er Kristján Flosason.  Kristján Flosason er íþróttafræðingur að mennt og hefur áralanga reynslu af þjálfun barna og unglinga.  Yfirþjálfari sér um alla skipulagningu íþróttaskólans í samvinnu við aðildarfélög HSV.  Yfirþjálfari íþróttaskóla HSV mun sjá um alla grunnþjálfun og boltaskóla fyrir börn í 1-2. bekk.   Þjálfarar í boltaskóla fyrir 3-4. bekk verða fengnir frá aðildafélögum sem koma með sérþekkingu á sinni grein og kafa dýpra í hverja boltagrein. 

Verð á haustönn verður 7000 kr fyrir önnina hvort sem valið er allir eða einn hluti íþróttaskólans.

Skráning í íþróttaskólann mun fara fram í gegnum sérstakt skráningarkerfi sem er aðgengilegt hér á heimasíðu HSV. 

 

Markmið íþróttaskóla HSV er:

  • Fá sem allra flest börn til að iðka íþróttir
  • Að fyrstu kynni barna af íþróttaiðkun sé jákvæð
  • Að börn fái að kynnast sem flestum íþróttagreinum
  • Að auka gæði þjálfunar
  • Lækka kostnað heimila við íþróttaiðkun barna
  • Auka grunnþjálfunarhluta æfinga, almenna hreyfingu, hreyfiþroska og hreyfigetu