Kristín Þorsteinsdóttir íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2015
Kristín Þorsteinsdóttir íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2015
1 af 3

Ísafjarðarbær bauð til hófs í gær sunnudag þar sem útnefndur var Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2015, efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar ásamt því að veitt var sérstök viðurkenning fyrir gott og gjöfult starf til íþróttamála í sveitarfélaginu.

Það var Kristín Þorsteinsdóttir sundkona hjá íþróttafélaginu Ívari sem var útnefnd íþróttamaður Ísafjarðarbæjar árið 2015. Er það þriðja árið í röð sem Kristín hlýtur þennan titil. Efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar var útnefnd Anna María Daníelsdóttir frá Skíðafélagi Ísfirðinga. Tryggva Sigtryggssyni var svo veitt sértök viðurkenning fyrir gott og gjöfult starf til íþróttamála í sveitarfélaginu.

Kristín æfir sund hjá Ívari, íþróttafélagi fatlaðra og hefur náð afburða árangri á síðustu árum. Hún hefur verið fremsti íslenski sundmaðurinn sínum flokki undanfarin ár og er enn að bæta sinn árangur. Á erlendu mótum ársins sýnir árangurinn að hún er jafnframt ein sú besta í Evrópu og á heimsvísu. Á sterku alþjóðlegu sundmóti á Ítalíu í nóvember fyrir sundfólk með Downs syndrome setti hún 9 evrópumet og 2 heimsmet. Hún kom heim af því móti með fimm gull, eitt silfur og eitt brons ásamt því að að fá viðurkenningu fyrir besta áragnur mótisn Auk þess að vera afburða íþróttamaður, samvisku- og eljusöm er Kristín jafnframt létt í skapi og góður liðsfélagi. Með íþróttamiðað lífsmottó að leiðarljósi: "Æfingin skapar meistarann, ég get, skal og vil" er Kristín fyrirmynd og verðugur fulltrúi annara íþróttamanna.