Skíðamót Íslands 2013 var formlega sett við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju í gærkvöld. Þar voru saman komnir keppendur, aðstandendur keppenda og mótsins og aðrir velunnarar.

Við setninguna töluðu Jóhanna Oddsdóttir formaður Skíðafélags Ísafjarðar, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir varaforseti Bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og Árni Rúdólf Rúdólfsson varaformaður stjórnar Skíðasambands Íslands setti mótið. Daníel Jakobsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og ólympíufari stjórnaði dagskránni en einnig var boðið upp á tónlistaratriði, en Ísfirðingurinn Sunna Karen Einarsdóttir söng og spilaði á píanó.

Alls eru 61 keppendur skráðir til leiks í bæði alpagreinum og skíðagöngu frá 6 félögum víðsvegar af landinu. Þá munu einnig mæta til leiks nokkrir erlendir keppendur frá Ungverjalandi, Belgíu, Suður-Afríku og Marakkó.
Aðstæður á Ísafirði eru eins og þær gerast bestar, allar brekkur fullar af snjó og veðurspáin lofar svo sannarlega frábærum aðstæðum fyrir bæði keppendur og áhorfendur. Brekkurnar voru prufukeyrðar um páskana og segja fróðir menn að aðstæður hafi sjaldan verði jafn góðar fyrir Skíðamót Íslands í Tungudalnum og nú. 

Dagskrá mótsins má finna hér. 

HSV óskar öllum keppendum góðs gengis á mótinu.