Skráning er hafin á 17. Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður um verslunarmannahelgina á Sauðárkróki.
Skráningarfrestur er til miðnættis sunnudaginn 27. júlí.

Fleiri keppnisgreinar verða á mótinu á Sauðárkróki en nokkru sinni fyrr. Auk hefðbundinna greina eins og fótbolta, körfubolta, frjálsíþrótta, sunds og glímu verða nokkrar nýjar greinar. Má þar nefna bogfimi, siglingar og tölvuleiki. Auk þess verður keppt í motocrossi, dansi, golfi, hestaíþróttum, skák, stafsetningu, upplestri og strandblaki. Fatlaðir einstaklingar munu keppa í frjálsum og sundi.


Afþreyingardagskrá Unglingalandsmótsins er metnaðarfull. Í boði er m.a. þrautarbraut fyrir alla aldurshópa, útibíó, leiktæki og andlitsmálun fyrir yngstu kynslóðina. Þrjár smiðjur verða starfræktar, en það eru söngsmiðja, myndlistarsmiðja og leiklistarsmiðja. Gönguferðir verða um bæinn og nágrenni Sauðárkróks, júdókynning, knattþrautir KSÍ, tennisleiðsögn og kynning á parkour, sumbafitness, markaðstorg, popping-kennsla og opið golfmót.


Á hverju kvöldi verða glæsilegar kvöldvökur þar sem margir af okkar þekktustu tónlistarmönnum koma fram. Má þar nefna Jón Jónsson, Sverri Bergmann, Þórunni Antoníu, Friðrik Dór, Úlf Úlf og Magna Ásgeirsson.