Stjórn HSV hefur metið umsóknir um styrk frá Skaganum3X til að efla faglegt starf og gæði við þjálfun ungra iðkenda.  Styrkur Skagans 3X fyrir árið 2018 er kr. 1.500.000. Fyrirtækið hefur gefið vilyrði fyrir jafnháum styrk fyrir árið 2019 og verður auglýst eftir umsóknum vegna hans í lok þessa árs. Alls bárust 11 umsóknir frá átta aðildarfélögum HSV. Öll félög sem sóttu um fengu styrk, styrkupphæðir voru frá 50.000 til 300.000.

Megin markmið styrks Skagans3X er að efla faglegt starf og gæði við þjálfun ungra iðkenda er keppa undir merkjum aðildarfélaga HSV. Horft er til allra aðildarfélaga HSV og bæði stúlkna og drengja. Stuðningurinn er fyrst og fremst ætlaður sem viðbót við núverandi barna- og unglingastarf og ekki ætlaður til frekari fjárfestinga innan íþróttahreyfingarinnar.

 

Þau félög og verkefni sem hlutu styrk eru:

Golfklúbbur Ísafjarðar: Golfæfingar fyrir börn og unglinga með með námskeiðslotum PGA kennara. 

Hestamannafélagið Hending: Undirbúa og útbúa fræðsluefni til að taka á móti börnum úr íþróttaskóla HSV í nýja reiðhöll í Engidal haustið 2018.

Hestamannafélagið Stormur: Uppbygging barna- og unglingastarfs með reiðnámskeiðum

Hörður handknattleiksdeild: Til eflingar Vestfjarðamóts í handbolta sem er lokamótið í Íslandsmóti 6. flokks drengja.

Íþróttafélagið Ívar: Styrkja unglingastarf félagsins og bjóða upp á meiri fjölbreytni í íþróttagreinum.

Skíðafélag Ísfirðinga: æfingabúðir og þjálfaranámskeið fyrir bretti, göngu og alpagreinar.

Sæfari: Styrkja grunnstarf Sæfara, siglinganámskeið fyrir ungmenni 9-14 ára.

Vestri knattspyrnudeild: Þrjú verkefni; afreksþjálfun, endurgerð og þýðing á uppeldisstefnu og átak í kvennaknattspyrnu.

Vestri körfuknattleiksdeild: Þrjú fræðsluverkefni; þjálfaranámskeið, dómaranámskeið og tölfræðiskráningarnámskeið.

 

HSV þakkar 3X fyrir stuðninginn og hlakkar til áframhaldandi samstarfs við fyrirtækið