Vestri deildarmeistarar 2019
Vestri deildarmeistarar 2019
1 af 3

Karlalið Vestra í blaki varð í efsta sæti í keppni í 1. deild og eru því deildarmeistarar. Síðastliðinn laugardag fengu þeir afhent verðlaun af því tilefni. Það var Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar sem afhenti þeim deildarbikarinn í Torfnesi að loknum sigurleik gegn HKb. Með sigri sínum í fyrstu deild hefur Vestri tryggt sér keppnisrétt í úrvalsdeild næsta keppnistímabil. Þjálfari Vestra er Tihomir Paunovski.

Nánar
Albert, Heimir og Dagur eftir undirritun samninga við Afrekssjóð HSV
Albert, Heimir og Dagur eftir undirritun samninga við Afrekssjóð HSV

Á meðan Heimsmeistaramótið í norrænum greinum fór fram í Seefeld í Austurríki í febrúar, gerði Afrekssjóður HSV samninga við tvo keppendur. Albert Jónsson og Dagur Benediktsson frá Skíðafélagi Ísfirðinga voru meðal keppenda en þeir fá nú mánaðarlegan styrk frá Afrekssjóðnum fyrir árið 2019. Heimir Hansson stjórnarmaður í HSV hitti þá félaga í Seefeld og skrifaði undir samninga við þá fyrir hönd Afrekssjóðs HSV.

Albert Jónsson hefur síðustu ár verið í hópi sterkustu göngumanna landsins. Hann hefur tekið þátt í alþjóðlegum viðburðum og keppnum fyrir Íslands hönd undanfarin ár svo sem Olympíuhátíð Evrópuæskunnar í Austurríki 2015, æfingabúðum á Ítalíu á vegum Alþjóðlega skiðasambandsins árið 2016, HM U23 í Lahti í Finnlandií janúar og svo núna síðast HM fullorðinna í Austurríki. Albert var kjörinn íþróttamaður Ísafjarðarbæjar árið 2017. Albert er við æfingar og keppni í Noregi og stefnir á að komast á Olympíuleikana í Kína árið 2022.

Dagur Benediktsson hefur eflst mikið undanfarið sem gönguskíðamaður og var ásamt Alberti keppandi á HM U23 í Lahti í Finnlandi í janúar og lauk nýverið keppni á HM fullorðinna í Seefeld í Austurríki. Áður hefur hann keppt á Olympíuhátíð Evrópuæskunnar og Olympíumóti ungmenna. Á síðasta ári varð Dagur bikarmeistari SKÍ bæði í flokki fullorðinna og 19-20 ára. Í Fossavatnsgöngunni 2018 varð Dagur í 5. sæti. Dagur æfir og keppir nú í Svíþjóð með það að markmiði að komast á Olympíuleikana í Kína árið 2022.

 

 

 

Nánar

Vestramenn vinna nú hörðum höndum að því að útbúa félagsaðstöðu á efri hæðinni í Vallarhúsinu á Torfnesi. Þar verður stór salur sem nýtast mun öllum deildum félagsins sem og öðrum íþróttafélögum sem þess óska. Einnig verða sett upp salerni og eldhúsaðstaða. Á meðfylgjandi mynd má sjá Hjalta Karlsson formann Vestra mála loftbita í húsinu með Vestrabláum lit.

Nánar

Á komandi helgi spilar Vestri tvo blakleiki í íþróttahúsinu á Torfnesi. Á laugardag kl. 13 er það meistaraflokkur karla sem tekur á móti HKb og á sunnudag kl. 14 spilar meistarflokkur kvenna við HKb.

Karlalið Vestra hefur gengið mjög vel í vetur og er sem stendur í efsta sæti 1. deildar með 33 stig eftir 12 leiki en HKb er í þriðja sæti með 23 stig en á tvo leiki til góða. Það stefnir því í skemmtilegan leik á laugardaginn hjá Vestramönnum.

Vestrakonur eru í þriðja sæti í 1. deild en HKb eru í öðru sæti með einu stigi meira en Vestri sem á einn leik til góða. Leikur sunnudagsins hjá kvennaliði Vestra verður því eflaust spennandi og barist um hvert stig. 

Hvetjum við fólk til að mæta en blak er mjög skemmtileg íþrótt og oft mikil spenna í leiknum.

Nánar

Orkubú Vestfjarðar veitir HSV styrk úr samfélagssjóði sínum vegna fræðsluátaks fyrir iðkendur aðildarfélaga HSV um næringu. 

Fyrir börn og unglinga er nær ómögulegt að átta sig á hvað er rétt og hvað er rangt þegar kemur að næringu. Til að styðja okkar ungmenni til bættrar næringar og heilsu hyggst HSV vera með fræðsluverkefni fyrir iðkendur sína þar sem næringarfræðingur fer yfir hver er besta næring fyrir unglinga og ungt fólk. Einnig verður kynnt hvað ber að varast og sérstaklega farið yfir mest áberandi fæðubótarefni og orkudrykki. Að lokum verður sérstaklega farið í næringu íþróttafólks og kynnt hvernig best er að haga undirbúningi fyrir erfiðar æfingar og keppni og hvað er best fyrir endurheimt miðað við aldur.

Þessi styrkur Orkubúsins gerir HSV kleift að setja þetta átak af stað. Héraðssamband Vestfirðinga þakkar Orkubúi Vestfjarðar kærlega fyrir stuðninginn og áhuga á starfi sambandsins.

Nánar